Stjórnlagaþing er nákvæmlega?

Nú er ég bara krakka asni sem varla man eftir síðustu vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar 1988 held ég, og hef alist upp við bláu höndina sem stjórnvaldið og þekki lítið annað. Ég veit hvað stjórnlagaþing er en mín spurning er um praktísk mál. Hvernig fer stjórnlagaþing fram?

Hverjir mega bjóða sig fram til þess, er það bara á færi stjórnmálaflokka? Eða mega einstaklingar sækjast eftir því? Hvað situr það lengi? Hvernig fer það fram? Svoleiðis spurningar eru að brenna á mér... Er nefnilega ekki að fara að hafa mikla trú á svoleiðis gjörningi sem inniheldur mikið að flokksapparötum sem þurfa að passa upp á sína hluti á kostnað lýðræðis og almennings...

Veit einhver eitthvað um þetta? Hefur áður verið haldið stjórnlagaþing hér á landi?


mbl.is Samþykkja stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Hér er ályktunin frá Framsókn frá flokksþinginu í janúar.

Ályktun um stjórnlagaþing

Markmið

Að stjórnskipun Íslands verði endurskoðuð á sérstöku stjórnlagaþingi þar sem stjórnarskrá Íslands og eftir ástæðum viðeigandi lög um stjórnsýslu, dómstóla, löggjafarstarf og kosningar verði endurskoðuð til samræmis við framsæknar hugmyndir um stjórnskipun landsins um gagnsæi, lýðræðislega þátttöku og jafnvægi milli valdþátta.

Leiðir

Helstu álitamál sem taka þarf afstöðu til á stjórnlagaþingi eru meðal annars:

• Hvort afnema eigi þingræði og taka upp beina kosningu æðsta handhafa framkvæmdarvalds

• Hvernig eftirliti með valdháttum eigi að vera háttað, eftirlitshlutverk Alþingis, virkari ráðherraábyrgð og óháðara val dómara

• Hvort auka eigi valfrelsi kjósenda um fulltrúa á framboðslistum

• Hvort takmarka eigi hámarkssetutíma þingmanna og ráðherra

• Hvort auka eigi möguleika á þjóðaratkvæði og jafnvel frumkvæði að löggjöf frá almenningi

• Hvernig gagnsæi stjórnkerfisins sé tryggt

• Hvort þörf sé á sérstökum þjóðhöfðingja og þá hvert hlutverk hans eigi að vera

• Hver staða sveitarfélaganna eigi að vera, svo sem með hlutdeild í fjárstjórnarvaldi ríkisins

• Hvort og þá hvernig skipta eigi landinu í kjördæmi

• Hvernig staðið skuli að framsali valdheimilda til alþjóðlegra stofnana

• Hvernig tryggja eigi skýrt og ótvírætt sjálfstæði hinna þriggja meginþátta ríkisvaldsins löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds

Fyrstu skref

Þingflokkur Framsóknarflokksins skal leggja fram tillögu á Alþingi um kosningu til stjórnlagaþings í samræmi við niðurstöður íbúalýðræðisnefndar flokksins. Einnig verði lögð fram tillaga um breytingu á stjórnarskránni þess eðlis að breytingar á stjórnarskrá verði bornar undir þjóðaratkvæði. Stefnt skal að því að stjórnlagaþing verði kallað saman sem fyrst og tillögur þess að nýrri stjórnarskrá verði lagðar fyrir þjóðina. Stjórnlagaþing skal ekki vera skipað núverandi eða fyrrverandi alþingismönnum, ráðherrum eða formönnum stjórnmálahreyfinga.

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 29.1.2009 kl. 18:47

2 identicon

Nei aldrei. Það á alveg eftir að leggja niður reglurnar um hvernig fulltrúar á svona þing verða valdir og hvernig það á að starfa. Þetta er tvímælalaust heppilegasta leiðin til að breyta stjórnarskránni, þ.e. að aðskilja stjórnarkrármálin frá dægurpólitíkinni. Það er auðvitað ekki gott að þingmenn séu að semja leikreglurnar fyrir sig sjálfir.

En þetta er spennandi verkefni.

Bjarki (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 18:48

3 Smámynd: Stefán Gíslason

Ég er nokkuð viss um að stjórnlagaþing hefur ekki verið haldið áður hérlendis, en hef svo sem ekki rifjað söguna nægilega vel upp til að fullyrða neitt. Hins vegar þykist ég vita, að sú hugmynd sem nú er uppi geri ráð fyrir að kjörgengi til stjórnlagaþings hafi allir sem uppfylla kjörgengisskilyrði 34. gr. stjórnarskrárinnar nema forseti Íslands, alþingismenn og ráðherrar. Þingið yrði sem sagt skipað einstaklingum sem hafa lítil tengsl við flokkseigendafélögin. Því yrðu sjálfsagt sett tímamörk áður en kosið yrði til þess, en fyrirfram er það bara ákvörðunaratriði. Ætli menn séu ekki að tala um nokkra mánuði. Þingstörfin sjálf veit ég ekkert um. Þetta verður náttúrulega bara eins og stór, fjölskipuð nefnd, sem hægt væri að láta vinna að einstökum málum í minni hópum á milli þess sem allt þingið hittist og ber saman bækur sínar....

Stefán Gíslason, 29.1.2009 kl. 18:49

4 Smámynd: Stefán Gíslason

PS: Já, þarna eru komin tvö ágæt svör á meðan ég sat við skriftir......

Stefán Gíslason, 29.1.2009 kl. 18:50

5 identicon

Með smá Google leit fann ég út að Jóhanna beib var með tillögu um svona stjórnlagaþing árið 1994: 

http://www.althingi.is/altext/118/s/0241.html 

Þannig hlýtur hún að hoppa hæð sína núna þegar henni er beinlínis skipað og lofað að svo skuli verða. 

Skv. ofangreindu skjali er stjórnlagaþing sérstakt þing um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Gott mál! Það eina sem ég hef áhyggjur af núna er að hugsjónir þeirrar fylgingar sem er að myndast (www.lydveldisbyltingin.is, nafn á fylginguna verður vonandi fljótlega tilbúið) komist ekki til skila ef byltingastjórnin núna ætlar að keyra málið á fullu.

Albert Sigurðsson 

Albert Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 19:08

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvort afnema eigi þingræði og taka upp beina kosningu æðsta handhafa framkvæmdarvalds

Sama fyrirkomulag er í Bandaríkjunum og er góðra gjalda vert, en hefur samt ekki komið algjörlega í veg fyrir að ráðskast sé með þingið, síðasta uppátækið hjá fráfarandi stjórn fólst t.d. í beinum hótunum til ósamvinnuþýðra þingmanna.

Hvort takmarka eigi hámarkssetutíma þingmanna og ráðherra

Nauðsynlegt ákvæði sem er í gildi í mörgum löndum.

Hvernig gagnsæi stjórnkerfisins sé tryggt

Skýr og traust upplýsingalöggjöf er líka nauðsynleg og til staðar í mörgum öðrum löndum.

Hvort þörf sé á sérstökum þjóðhöfðingja og þá hvert hlutverk hans eigi að vera

Ég held að nýliðnir atburðir hafa svarað þessari spurningu í eitt skipti fyrir öll! Ef ekki hefði verið til staðar óháður aðili til að fela einhverjum öðrum en Sjálfstæðisflokki stjórnarmyndunarumboð, þá væru þeir líklega ennþá að rífast um það við Samfylkinguna, og þá fyrst væri stjórnarkreppa í landinu!

Hvort og þá hvernig skipta eigi landinu í kjördæmi

Þarf nokkuð að skipta 300.000 hræðum niður í kjördæmi? Það er ósköp einfaldlega réttlætismál að atkvæði mitt vegi nákvæmlega jafn þungt og hans Binna frænda á Raufarhöfn!

Hvernig staðið skuli að framsali valdheimilda til alþjóðlegra stofnana

Yfirhöfuð helst ekki, nema það sé tímabundið eða afturkallanlegt, og þá eingöngu í umboði skýrs meirihluta þjóðarinnar. Er einhver betur til þess að fallinn að fara með stjórn mála hér, en við Íslendingar sjálfir? Ég veit ekki betur en að mestu uppgangstímar í sögu þjóðarinnar hafi orðið frá því að landið varð aftur fullvalda.

Hvernig tryggja eigi skýrt og ótvírætt sjálfstæði hinna þriggja meginþátta ríkisvaldsins löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds

Númer 1: koma í veg fyrir að menn á borð við Björn Bjarnason og Árna Mathiesen fái að ráða því hverjir verða dómarar!

Til hamingju Ísland. Lengi lifi byltingin!

Guðmundur Ásgeirsson, 29.1.2009 kl. 20:45

7 identicon

Ég er sammála niðurlagi Bofsans hér á undan, en vil helst bæta Ögmundi, Össuri, Geir og öllum Frjálslinda flokknum við listann yfir óæskilega menn á þingi eða nálægt stjórn. PS: stjórnarandstaða og sítarklassík fara vel saman: http://www.youtube.com/watch?v=8-OkgxhDteg&feature=related :)

Albert Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 22:07

8 Smámynd: Skaz

Hmm, búinn að skoða þetta núna og þá möguleika sem eru í stöðunni varðandi Alþingi.

Og ég sé enga ástæðu til þess að draga úr þingræðinu, það þarf bara að tryggja þau völd sem það á að hafa og koma framkvæmdarvaldinu af þinginu. Og að auki er nauðsynlegt að auka sjálfstæði einstakra þingmanna frá þeim flokkum sem telja sig eiga sætið þeirra...

Ég er á því að nú sé hér defacto flokksræði. Og það er ekki góður hlutur að mínu mati. Það þarf að skipta landinu niður í umdæmi þar sem að þingmenn eru kosnir einn úr hverju umdæmi. Svipað og kaninn er með í fulltrúaþingi sínu. Ca. 5000 manns eru í hverju umdæmi miðað við 320 þús deilt í 63 sæti. Þetta er nægilega lítill hópur sem getur haft gífurleg áhrif á sinn þingmann, nægilega mikil í það minnsta að hann hefur ekki efni á að hunsa kjósendur sína til að eltast við einhverja flokksstefnu alltaf hreint. Þetta yrði mun persónulegra kjör.

Það yrði náttúrulega að verða þannig að 51% yrði að kjósa þann þingmann sem ynni, og það myndi þýða 2 kosningar ef enginn fengi meirihluta atkvæðanna, þ.e.a.s. svokallaðar run off kosningu.

Held að þetta sé skárri leið heldur en að fá að raða á sinn eigin lista. A.m.k. einfaldari og dregur töluvert úr flokksræðinu.

Skaz, 30.1.2009 kl. 07:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband