Opið bréf til Forsætisráðherra, ríkisstjórnarinnar og Alþingis.

Akureyri 10.11.08

 

Góðan daginn.

Þetta bréf er ritað vegna ummæla hæstvirts forsætisráðherra Geirs H. Haarde í Morgunblaðinu sem birtust í dag. Þar segir Forsætisráðherra: "Fólk sem ber sig eftir upplýsingum á að geta fengið þær," 

 Þetta bréf er því tilraun mín til að bera mig eftir upplýsingum. Það ber að taka fram að þetta bréf og efni þess er ekki trúnaðarmál eða persónulegt mál heldur opið bréf sem birtist á mbl.is ásamt svörum sem kunna að berast.

Það sem upplýsingar skortir um eru eftirfarandi atriði:

  • Hver er raunveruleg staða lánsins frá IMF og fyrirstaða þess? Er það þóf og kröfur frá Bretum og Hollendingum eða lán frá öðrum þjóðum sem ekki ganga upp? Eða er þetta samspil þessara tveggja mála?
  • Hver er ástæða forsætisráðherra og flokks hans fyrir að leggjast gegn aðild að ESB og Evrunni? Ekki bara vegna núverandi ástands heldur almennt. Af hverju hefur ekki verið kallað til kosninga um hvort að fara eigi í það verkefni að skoða aðild, kosti hennar og galla?
  • Hvaða aðgerðir aðrar en Félags- og tryggingarmálaráðherra eru komnar á framkvæmdarstig? Hvaða aðgerðir verða komnar í framkvæmd fyrir næstu mánaðarmót? Er einhver langtímastefna í mótun og ef svo er hver er hún?
  • Verður verðtryggingin, sem ekki tíðkast í nágrannalöndum okkar, afnumin hér á landi? Óumdeilanlegt er að hún myndi hjálpa heimilum landsins á kostnað lífeyrissjóðanna. En hins vegar myndi þessi aðgerð færa okkur mun nær þeirri aðstöðu sem fólk býr við í löndum í kringum okkur og hún myndi létta verulega á heimilum landsins. Er hægt að afnema hana á þessu ári og gera Íbúðarlánasjóði og bönkunum að afnema hana á lánum eftir óskum skuldara?
  • Þúsundir fólks hafa mótmælt undanfarna daga því að samskipti Ríkisstjórnarinnar um aðgerðir og ástand mála séu mjög slæm. Kemur til greina að koma á fót daglegum eða vikulegum blaðamannafundum þar sem einhver fulltrúi ríkisstjórnarinnar fer yfir málefni og svarar spurningum. Vil benda á að þetta fyrirkomulag er til staðar í fjölda löndum í Evrópu og í heiminum öllum. Ef þetta er hægt hvenær yrði það þá gert?
  •  Það er ljóst að ástand efnahagsins hefur gjörbreyst og allar forsendur síðustu Alþingiskosninga eru brostnar. Verður boðað til kosninga á þessu eða næsta ári? Hvenær þá? 
  • Í ljósi vantrausts u.þ.b. 90% aðspurðra í könnun um traust á núverandi Seðlabankastjórn er henni stætt að sitja áfram? Afhverju þá?
  • Í ljósi stigvaxandi mótmæla almennings í garð meðhöndlunar ríkisstjórnar og Alþingis ásamt stofnunum er þeim tilheyra. Er þá ekki eðlilegt að telja að umboð þessara aðila til að stjórna landinu sé hverfandi eða horfið? Ef ekki, afhverju? Hefur álit meirihluta almennings ekki áhrif á það hvort að ríkisstjórnin telji sig geta setið áfram?

Þetta er brot af þeim spurningum sem almenningur hefur en ég hef valið úr til þess að bera mig eftir svörum á fyrir hönd almennings í landinu. Skjót og nákvæm svör við þessum spurningum eru vel þegin og álitin nauðsynleg fyrir ró og vellíðan fólks í landinu sem er uggandi vegna framtíðarinnar. Öll svör er berast vegna þessa bréfs verða birt á vefsíðu minn á blog.is, slóðin þangað er þessi hér http://skastrik.blog.is/

Með kveðju
Ásgeir Jóhannsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://gunnaraxel.blog.is/blog/gunnaraxel/

Þettar mesta svikamylla sem ég hef séð síðan fall bankanna varð opinbert.

Kannski er þetta allt meiri glæpamennska en manni óraði fyrir í upphafi.

Hvar er Magnús Ármann?
Hver seldi honum?
Hver lánaði honum?  Sami aðili?
Hvað fékk Magnús Ármann fyrir, gjaldþrota maðurinn sem á einnig stærstan hluti í Byr í dag..

Socrates (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 16:28

2 Smámynd: Skaz

heh, fékk ekki eitt einasta viðbragð við þessu bréfi mínu. Býst við að ég hafi þá ekki haft mig nægilega við að fá upplýsingar að mati Geirs H. Haarde...

Skaz, 15.11.2008 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband